Níðaður hét konungur í Svíþjóð. Hann átti tvo sonu og eina
dóttur. Hún hét Böðvildur. Bræður vóru þrír, synir Finnakonungs. Hét
einn Slagfiður, annar Egill, þriðji Völundur. Þeir skriðu og veiddu
dýr. Þeir kómu í Úlfdali og gerðu sér það hús. Þar er vatn er heitir
Úlfsjár. Snemma um morgun fundu þeir á vatnsströndu konur þrjár, og
spunnu lín. Þar vóru hjá þeim álftarhamir þeirra. Það vóru
valkyrjur. Þar vóru tvær dætur Hlöðvés konungs, Hlaðguður svanhvít og
Hervör alvitur, in þriðja var Ölrún Kjársdóttir af Vallandi. Þeir
höfðu þær heim til skála með sér. Fékk Egill Ölrúnar en Slagfiður
Svanhvítrar, en Völundur Alvitrar. Þau bjuggu sjö vetur. Þá flugu þær
að vitja víga og kómu eigi aftur. Þá skreið Egill að leita Ölrúnar en
Slagfiður leitaði Svanhvítrar en Völundur sat í Úlfdölum. Hann var
hagastur maður svo að menn viti í fornum sögum. Níðuður konungur lét
hann höndum taka svo sem hér er um kveðið:
1. Meyjar flugu sunnan
myrkvið í gögnum,
alvitur ungar
örlög drýgja.
Þær á sævarströnd
settust að hvílast,
drósir suðrænar,
dýrt lín spunnu.
2. Ein nam þeirra
Egil að verja,
fögur mær fira,
faðmi ljósum.
Önnur var Svanhvít,
svanfjaðrar dró,
en in þriðja
þeirra systir
varði hvítan
háls Völundar.
3. Sátu síðan
sjö vetur að það
en inn átta
allan þráðu
en inn níunda
nauður um skildi.
Meyjar fýstust
á myrkvan við,
alvitur ungar,
örlög drýgja.
4. Kom þar af veiði
veðureygur skyti,
Slagfiður og Egill
sali fundu auða,
gengu út og inn
og um sáust.
5. Austur skreið Egill
að Ölrúnu
en suður Slagfiður
að Svanhvítu,
en einn Völundur
sat í Úlfdölum.
6. Hann slá gull rautt
við gim fástan,
lukti hann alla
lind baugum vel.
Svo beið hann
sinnar ljóssar
kvonar ef honum
koma gerði.
7. Það spyr Níðuður,
Njára dróttinn,
að einn Völundur
sat í Úlfdölum.
Nóttum fóru seggir,
negldar vóru brynjur,
skildir bliku þeirra
við inn skarða mána.
8. Stigu úr sölum
að salar gafli,
gengu inn þaðan
endlangan sal;
sáu þeir á bast
bauga dregna,
sjö hundruð allra,
er sá seggur átti.
9. Og þeir af tóku
og þeir á létu,
fyr einn utan,
er þeir af létu.
10. Kom þar af veiði
veðureygur skyti,
Völundur líðandi
um langan veg.
Gekk brúnnar
beru hold steikja,
ár brann hrísi
allþurr fura,
viður inn vindþurri,
fyrir Völundi.
11. Sat á berfjalli,
bauga taldi,
álfa ljóði,
eins saknaði;
hugði hann að hefði
Hlöðvés dóttir,
alvitur unga,
væri hún aftur komin.
12. Sat hann svo lengi
að hann sofnaði;
og hann vaknaði
viljalaus;
vissi sér á höndum
höfgar nauðir
en á fótum
fjötur um spenntan.
Völundur kvað:
13. Hverjir eru jöfrar
þeir er á lögðu
bestibyrsíma
og mig bundu?
14. Kallaði nú Níðuður
Njára dróttinn:
Hvar gastu, Völundur,
vísi álfa,
vora aura
í Úlfdölum?
Gull var þar eigi
á Grana leiðu,
fjarri hugða eg vort land
fjöllum Rínar.
Völundur kvað:
15. Man eg að vér meiri
mæti áttum
er vér heil hjú
heima vórum:
Hlaðguður og Hervör
borin var Hlöðvé
kunn var Ölrún
Kjárs dóttir.
16. [Úti stendur kunnig
kvon Níðaðar],
hún inn um gekk
endlangan sal,
stóð á gólfi,
stillti röddu:
Er-a sá nú hýr
er úr holti fer.
Níðuður konungur gaf dóttur sinni Böðvildi gullhring þann er hann
tók af bastinu að Völundar, en hann sjálfur bar sverðið er Völundur
átti. En drottning kvað:
17. Tenn honum teygjast
er honum er téð sverð
og hann Böðvildar
baug um þekkir.
Ámun eru augu
ormi þeim inum frána.
Sníðið ér hann
sina magni
og setjið hann síðan
í Sævarstöð.
Svo var gert, að skornar vóru sinar í knésbótum og settur í hólm
einn er þar var fyrir landi, er hét Sævarstaður. Þar smíðaði hann
konungi alls kyns gersimar. Engi maður þorði að fara til hans nema
konungur einn.