1. Gáttir allar
áður gangi fram
um skoðast skyli,
um skyggnast skyli,
því að óvíst er að vita
hvar óvinir
sitja á fleti fyrir.
2. Gefendur heilir,
gestur er inn kominn,
hvar skal sitja sjá?
Mjög er bráður
sá er á bröndum skal
síns um freista frama.
3. Elds er þörf
þeim er inn er kominn
og á kné kalinn;
matar og voða
er manni þörf
þeim er hefir um fjall farið.
4. Vatns er þörf
þeim er til verðar kemur,
þerru og þjóðlaðar,
góðs um æðis
ef sér geta mætti
orðs og endurþögu.
5. Vits er þörf
þeim er víða ratar;
dælt er heima hvað.
Að augabragði verður
sá er ekki kann
og með snotrum situr.
6. Að hyggjandi sinni
skyli-t maður hræsinn vera
heldur gætinn að geði.
Þá er horskur og þögull
kemur heimisgarða til
sjaldan verður víti vörum
því að óbrigðra vin
fær maður aldregi
en manvit mikið.
7. Inn vari gestur,
er til verðar kemur,
þunnu hljóði þegir,
eyrum hlýðir
en augum skoðar;
svo nýsist fróðra hver fyrir.
8. Hinn er sæll,
er sér um getur
lof og líknstafi.
Ódælla er við það,
er maður eiga skal
annars brjóstum í.
9. Sá er sæll
er sjálfur um á
lof og vit meðan lifir
því að ill ráð
hefir maður oft þegið
annars brjóstum úr.
10. Byrði betri
ber-at maður brautu að
en sé manvit mikið.
Auði betra
þykir það í ókunnum stað;
slíkt er volaðs vera.
11. Byrði betri
ber-at maður brautu að
en sé manvit mikið;
vegnest verra
vegur-a hann velli að
en sé ofdrykkja öls.
12. Er-a svo gott
sem gott kveða
öl alda sonum
því að færra veit
er fleira drekkur
síns til geðs gumi.
13. Óminnishegri heitir
sá er yfir öldrum þrumir;
hann stelur geði guma.
Þess fugls fjöðrum
eg fjötraður vark
í garði Gunnlaðar.
14. Ölur eg varð,
varð ofurölvi
að ins fróða Fjalars.
Því er öldur best
að aftur um heimtir
hver sitt geð gumi.
15. Þagalt og hugalt
skyli þjóðans barn
og vígdjarft vera;
glaður og reifur
skyli gumna hver
uns sinn bíður bana.
16. Ósnjallur maður
hyggst munu ey lifa
ef hann við víg varast
en elli gefur
honum engi frið
þótt honum geirar gefi.
17. Kópir afglapi
er til kynnis kemur,
þylst hann um eða þrumir.
Allt er senn
ef hann sylg um getur,
uppi er þá geð guma.
18. Sá einn veit
er víða ratar
og hefir fjöld um farið
hverju geði
stýrir gumna hver
sá er vitandi er vits.
19. Haldi-t maður á keri,
drekki þó að hófi mjöð,
mæli þarft eða þegi;
ókynnis þess
vár þig engi maður
að þú gangir snemma að sofa.
20. Gráðugur halur
nema geðs viti
etur sér aldurtrega;
oft fær hlægis,
er með horskum kemur,
manni heimskum magi.
21. Hjarðir það vitu
nær þær heim skulu
og ganga þá af grasi;
en ósvinnur maður
kann ævagi
síns um mál maga.
22. Vesall maður
og illa skapi
hlær að hvívetna.
Hittki hann veit,
er hann vita þyrfti,
að hann er-a vamma vanur.
23. Ósvinnur maður
vakir um allar nætur
og hyggur að hvívetna;
þá er móður
er að morgni kemur;
allt er víl sem var.
24. Ósnotur maður
hyggur sér alla vera
viðhlæjendur vini.
Hittki hann finnur
þótt þeir um hann fár lesi
ef hann með snotrum situr.
25. Ósnotur maður
hyggur sér alla vera
viðhlæjendur vini;
þá það finnur
er að þingi kemur
að hann á formælendur fáa.
26. Ósnotur maður
þykist allt vita,
ef hann á sér í vá veru.
Hittki hann veit
hvað hann skal við kveða
ef hans freista firar.
27. Ósnotur maður
er með aldir kemur
það er best að hann þegi.
Engi það veit
að hann ekki kann
nema hann mæli til margt;
veit-a maður
hinn er vætki veit
þótt hann mæli til margt.
28. Fróður sá þykist
er fregna kann
og segja ið sama.
Eyvitu leyna
megu ýta synir
því er gengur um guma.
29. Ærna mælir
sá er æva þegir
staðlausu stafi;
Hraðmælt tunga
nema sér haldendur eigi
oft sér ógott um gelur.
30. Að augabragði
skal-a maður annan hafa
þótt til kynnis komi;
margur þá fróður þykist
ef hann freginn er-at
og nái hann þurrfjallur þruma.
31. Fróður þykist
sá er flótta tekur
gestur að gest hæðinn;
veit-a görla
sá er um verði glissir
þótt hann með grömum glami.
32. Gumnar margir
erust gagnhollir
en að virði [v]rekast,
aldar róg
það mun æ vera,
órir gestur við gest.
33. Árliga verðar
skyli maður oft fá
nema til kynnis komi;
situr og snópir,
lætur sem sólginn sé
og kann fregna að fáu.
34. Afhvarf mikið
er til ills vinar
þótt á brautu búi,
en til góðs vinar
liggja gagnvegir
þótt hann sé firr farinn.
35. Ganga skal,
skal-a gestur vera
ey í einum stað;
ljúfur verður leiður
ef lengi situr
annars fletjum á.
36. Bú er betra
þótt lítið sé,
halur er heima hver;
þótt tvær geitur eigi
og taugreftan sal,
það er þó betra en bæn.
37. Bú er betra
þótt lítið sé,
halur er heima hver;
blóðugt er hjarta
þeim er biðja skal
sér í mál hvert matar.
38. Vopnum sínum
skal-a maður velli á
feti ganga framar
því að óvíst er að vita
nær verður á vegum úti
geirs um þörf guma.
39. Fannk-a eg mildan mann
eða svo matar góðan
að ei væri þiggja þegið
eða síns fjár
svogi [glöggvan]
að leið sé laun ef þægi.
40. Fjár síns,
er fengið hefir,
skyli-t maður þörf þola;
oft sparir leiðum
það er hefir ljúfum hugað,
margt gengur verr en varir.
41. Vopnum og voðum
skulu vinir gleðjast,
það er á sjálfum sýnst.
Viðurgefendur og endurgefendur
erust lengst vinir
ef það bíður að verða vel.
42. Vin sínum
skal maður vinur vera
og gjalda gjöf við gjöf.
Hlátur við hlátri
skyli höldar taka
en lausung við lygi.
43. Vin sínum
skal maður vinur vera,
þeim og þess vin;
en óvinar síns
skyli engi maður
vinar vinur vera.
44. Veistu ef þú vin átt
þann er þú vel trúir
og vilt þú af honum gott geta,
geði skaltu við þann blanda
og gjöfum skipta,
fara að finna oft.
45. Ef þú átt annan
þann er þú illa trúir,
viltu af honum þó gott geta,
fagurt skaltu við þann mæla
en flátt hyggja
og gjalda lausung við lygi.
46. Það er enn um þann
er þú illa trúir
og þér er grunur að hans geði,
hlæja skaltu við þeim
og um hug mæla;
glík skulu gjöld gjöfum.
47. Ungur var eg forðum,
fór eg einn saman,
þá varð eg villur vega;
auðigur þóttumk
er eg annan fann,
maður er manns gaman.
48. Mildir, fræknir
menn best lifa,
sjaldan sút ala;
en ósnjallur maður
uggir hotvetna,
sýtir æ glöggur við gjöfum.
49. Voðir mínar
gaf eg velli að
tveim trémönnum;
rekkar það þóttust
er þeir rift höfðu;
neis er nökkviður halur.
50. Hrörnar þöll
sú er stendur þorpi á,
hlýr-at henni börkur né barr.
Svo er maður
sá er manngi ann.
Hvað skal hann lengi lifa?
51. Eldi heitari
brennur með illum vinum
friður fimm daga,
en þá slokknar
er hinn sétti kemur
og versnar allur vinskapur.
52. Mikið eitt
skal-a manni gefa;
oft kaupir sér í litlu lof;
með hálfum hleif
og með höllu keri
fékk eg mér félaga.
53. Lítilla sanda,
lítilla sæva,
lítil eru geð guma;
því allir menn
urðu-t jafnspakir;
hálf er öld hvar.
54. Meðalsnotur
skyli manna hver,
æva til snotur sé.
Þeim er fyrða
fegurst að lifa
er vel margt vitu.
55. Meðalsnotur
skyli manna hver,
æva til snotur sé,
því að snoturs manns hjarta
verður sjaldan glatt
ef sá er alsnotur er á.
56. Meðalsnotur
skyli manna hver,
æva til snotur sé.
Örlög sín
viti engi fyrir,
þeim er sorgalausastur sefi.
57. Brandur af brandi
brenn uns brunninn er,
funi kveikist af funa;
maður af manni
verður að máli kunnur
en til dælskur af dul.
58. Ár skal rísa
sá er annars vill
fé eða fjör hafa.
Sjaldan liggjandi úlfur
lær um getur
né sofandi maður sigur.
59. Ár skal rísa
sá er á yrkjendur fáa
og ganga síns verka á vit.
Margt um dvelur
þann er um morgun sefur.
Hálfur er auður und hvötum.
60. Þurra skíða
og þakinna næfra,
þess kann maður mjöt,
og þess viðar
er vinnast megi
mál og misseri.
61. Þveginn og mettur
ríði maður þingi að
þótt hann sé-t væddur til vel.
Skúa og bróka
skammist engi maður
né hests in heldur
þótt hann hafi-t góðan.
62. Snapir og gnapir
er til sævar kemur
örn á aldinn mar;
svo er maður
er með mörgum kemur
og á formælendur fáa.
63. Fregna og segja
skal fróðra hver
sá er vill heitinn horskur.
Einn vita
né annar skal,
þjóð veit ef þrír eru.
64. Ríki sitt
skyli ráðsnotra hver
í hófi hafa.
Þá hann það finnur
er með fræknum kemur
að engi er einna hvatastur.
65. Orða þeirra
er maður öðrum segir
oft hann gjöld um getur.
66. Mikilsti snemma
kom eg í marga staði
en til síð í suma.
Öl var drukkið,
sumt var ólagað;
sjaldan hittir leiður í lið.
67. Hér og hvar
myndi mér heim um boðið
ef þyrftag að málungi mat
eða tvö lær hengi
að ins tryggva vinar
þar er eg hafða eitt etið.
68. Eldur er bestur
með ýta sonum
og sólar sýn,
heilindi sitt,
ef maður hafa náir,
og án við löst að lifa.
69. Er-at maður alls vesall
þótt hann sé illa heill.
Sumur er af sonum sæll,
sumur af frændum,
sumur af fé ærnu,
sumur af verkum vel.
70. Betra er lifðum
en sé ólifðum,
ey getur kvikur kú.
Eld sá eg upp brenna
auðgum manni fyrir
en úti var dauður fyr durum.
71. Haltur ríður hrossi,
hjörð rekur handar vanur,
daufur vegur og dugir.
Blindur er betri
en brenndur sé,
nýtur manngi nás.
72. Sonur er betri
þótt sé síð um alinn
eftir genginn guma.
Sjaldan bautarsteinar
standa brautu nær
nema reisi niður að nið.
73. Tveir eru eins herjar,
tunga er höfuðs bani;
er mér í héðin hvern
handar væni.
74. Nótt verður feginn
sá er nesti trúir,
skammar eru skips rár;
hverf er haustgríma;
fjöld um viðrir
á fimm dögum
en meir á mánuði.
75. Veit-a hinn,
er vætki veit,
margur verður af aurum api.
Maður er auðigur,
annar óauðigur,
skyli-t þann vítka vár.
76. Deyr fé,
deyja frændur,
deyr sjálfur ið sama;
en orðstír
deyr aldregi
hveim er sér góðan getur.
77. Deyr fé,
deyja frændur,
deyr sjálfur ið sama.
Eg veit einn
að aldrei deyr:
dómur um dauðan hvern.
[legal]
[privacy]
[GNU]
[policy]
[cookies]
[netiquette]
[sponsors]
[FAQ]
[man]
Vote for polarhome |